Fréttir

Myndband: Scott og McIlroy í miklum vandræðum
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 16. febrúar 2020 kl. 20:44

Myndband: Scott og McIlroy í miklum vandræðum

Bestu kylfingar heims láta golf líta út fyrir vera ansi auðvelt oft á tíðum en einstaka sinnum þá lætur golf bestu kylfinga heims líta illa út. Lokadagur Genesis Invitational mótsins er fullum gangi og er mikil spenna á meðal efstu manna.

Mótið hefur nú þegar boðið upp á ansi skrautleg augnablik. Til að mynda þurfti Ryan Palmer sex högg til að komast upp úr glompu í gær og Tiger Woods fjórpúttaði í annað skipti á þessu ári í gær.

Adam Scott og Rory McIlroy voru í forystu fyrir daginn ásamt Matt Kuchar. Þegar þeir komu á fimmtu holuna í dag lentu Scott og McIlroy báðir í miklum hremmingum eftir að hafa slegið annað höggið yfir flötinu. Þá tók við högg sem reyndist þeim báðum ansi erfitt. Boltinn var fyrir neðan flötina og komu þeir honum ekki upp í fyrstu tilraun með þeim afleiðingum að hann rúllaði alla leið til baka. 

Scott endaði á því að fá tvöfaldan skolla á meðan McIlroy fékk þrefaldan skolla. Sjón er sögu ríkari en myndband af atvikunu má sjá hér að neðan.

Þegar fréttin er skrifuð er Scott þó enn jafn í efsta sætinu en McIlroy er þremur höggum á eftir.