Fréttir

Myndband: Wolff tryggði sér sigur með erni á lokaholunni
Matt Wolff.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 7. júlí 2019 kl. 23:12

Myndband: Wolff tryggði sér sigur með erni á lokaholunni

Matthew Wolff, sem gerðist atvinnukylfingur fyrir tæplega mánuði síðan, sigraði á 3M Open mótinu sem fór fram á PGA mótaröðinni um helgina.

Hinn tvítugi Wolff lék lokahring mótsins á 6 höggum undir pari og endaði höggi á undan öðrum nýliða á mótaröðinni, Collin Morikawa, og Bryson DeChambeau.

Úrslitin réðust á lokaholu mótsins en þeir Morikawa og Wolff léku í lokahollinu og komu á 18. holuna einu höggi á eftir DeChambeau sem var inni í klúbbhúsi á 20 höggum undir pari.

Wolff og Morikawa slógu báðir inn á 18. flötina í tveimur höggum og áttu því pútt eftir fyrir erni. Wolff gerði sér lítið fyrir og setti púttið í miðja holu og fagnaði því vel með kylfusveini sínum og stuttu seinna missti Morikawa sitt pútt. Þar með var fyrsti sigur Wolff í höfn.

Wolff lék undanfarin tvö ár með Oklahoma State skólanum þar sem hann var valinn kylfingur ársins í háskólagolfinu í vor eftir að hafa meðal annars sigrað á NCAA meistaramótinu. Í sumar ákvað hann svo að gerast atvinnukylfingur og var Travelers Championship mótið, sem fór fram seint í júní, hans fyrsta mót sem slíkur. Nú hefur Wolff tryggt sér þátttökurétt á PGA mótaröðinni til næstu tveggja ára ásamt því að þéna rúma milljón dollara fyrir sigurinn um helgina.

Staða efstu kylfinga í mótinu:

1. Matt Wolff, -21
2. Bryson DeChambeau, -20
2. Colin Morikawa, -20
4. Adam Hadwin, -18

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Icelandair Betra verð til Kanada 640
Icelandair Betra verð til Kanada 640