Fréttir

Myndir: Breytingar framundan á 12. holu Hvaleyrarvallar
Svona lítur 12. holan á Hvaleyrarvelli út í dag.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 15. janúar 2020 kl. 16:28

Myndir: Breytingar framundan á 12. holu Hvaleyrarvallar

Undanfarin ár hefur Golfklúbburinn Keilir, í samstarfi við sérfræðinga frá Mackenzie & Ebert fyrirtækinu, unnið að breytingum á seinni níu holum Hvaleyrarvallar.

Nú þegar hafa starfsmenn klúbbsins ráðist í nokkrar vel heppnaðar breytingar en þrátt fyrir það er nóg eftir. Nýjasta breytingin er lenging 16. holu vallarins sem verður kláruð næsta sumar en þar á undan voru 13., 14. og 15. hola vallarins teknar í notkun fyrir Íslandsmótið sem fór fram á Hvaleyrarvelli árið 2017.

Í sumar verða svo breytingar á núverandi 12. holu vallarins sem verður lokahola Hvaleyrarvallar þegar allar aðrar breytingar hafa átt sér stað. Breytingarnar á 12. holunni verða á þann hátt að hin umdeilda flöt holunnar færist nokkra metra til vinstri og verður staðsett við teigana á gömlu 13. holunni. Landslag flatarinnar verður töluvert öðruvísi en á núverandi flöt og þá verða settar tvær nýjar glompur við flötina.

Að sögn Ólafs Þórs Ágústssonar, framkvæmdastjóra GK, er stefnt að því að byrja á umræddum framkvæmdum í júní og að klára verkið á þremur vikum.

„Það sem er gott við þessar breytingar er að þetta mun ekki trufla golfspil hjá okkur. Framkvæmdasvæðið kemur ekki við núverandi 12. flöt.“

Hér fyrir neðan má sjá myndir af fyrirhuguðum breytingum sem Kylfingur fékk í hendurnar á dögunum.


Núverandi flöt má sjá hér neðst á mynd vinstra megin. Flötin færist nær núverandi 18. holu sem og örlítið nær klúbbhúsi Keilis.


Svona leit 12. holan út í sumar.


Svona mun 12. holan líta út. Innan fárra ára verður þetta 18. holan á vellinum en framundan eru fleiri breytingar á seinni níu.