Fréttir

Nordic Golf: Andri, Bjarki og Guðmundur undir pari
Andri Þór Björnsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 9. mars 2020 kl. 13:32

Nordic Golf: Andri, Bjarki og Guðmundur undir pari

Fyrsti hringur PGA Catalunya Resort meistaramótsins fór fram í dag á Spáni. Mótið er hluti af Nordic Golf mótaröðinni og eru sex íslenskir kylfingar með að þessu sinni.

Kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Andri Þór Björnsson, Bjarki Pétursson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús, Ragnar Már Garðarsson og Rúnar Arnórsson.

Andri, Bjarki og Guðmundur byrjuðu allir af krafti í mótinu og eru á meðal efstu manna að fyrsta hring loknum. Andri lék á þremur höggum undir pari og er jafn í 11. sæti þegar fréttin er skrifuð á meðan Bjarki og Guðmundur deila 33. sæti á höggi undir pari. Alls taka 127 kylfingar þátt í mótinu.

Annar hringur mótsins fer fram á morgun, þriðjudag, og halda þá 45 efstu kylfingarnir áfram. Búast má við því að niðurskurðarlínan verði í kringum parið.

Skor íslenska hópsins:

11. Andri Þór Björnsson, -3
33. Bjarki Pétursson, -1
33. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, -1
82. Rúnar Arnórsson, +3
95. Ragnar Már Garðarsson, +4
95. Haraldur Franklín Magnús, +4

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.