Fréttir

Nordic Golf: Axel endaði í 2. sæti á Ahus KGK Pro/Am
Axel Bóasson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 17. ágúst 2019 kl. 12:37

Nordic Golf: Axel endaði í 2. sæti á Ahus KGK Pro/Am

Keilismaðurinn Axel Bóasson náði í dag sínum besta árangri á Nordic Golf mótaröðinni á þessu tímabili þegar hann endaði í 2. sæti á Ahus KGK Pro/Am.

Fyrir lokahringinn var Axel á 2 höggum yfir pari í 15. sæti mótsins en hann lék á 5 höggum undir pari í dag sem var jöfnun á besta hring mótsins.


Skorkort Axels í mótinu.

Samtals lék Axel hringina þrjá á 3 höggum undir pari og varð að lokum 5 höggum á eftir Jesper Kennegard sem sigraði á mótinu.

Búast má við því að Axel fari upp um nokkur sæti á stigalista mótaraðarinnar en hann sat í 29. sæti fyrir mótið. Eins og áður hefur komið fram á Kylfingi öðlast fimm kylfingar þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni í lok tímabils en nú eru einungis átta mót eftir af tímabilinu.

Axel var einn þriggja íslenskra kylfinga sem tóku þátt í mótinu en auk hans tóku þeir Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson þátt. Haraldur endaði í 39. sæti en Guðmundur komst ekki áfram í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.