Fréttir

Nordic Golf: Axel í góðum málum eftir fyrsta hring
Axel Bóasson
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 26. júní 2019 kl. 13:33

Nordic Golf: Axel í góðum málum eftir fyrsta hring

Axel Bóasson og Andri Þór Björnsson hófu í morgun leik á Tinderbox Charity Challenge mótinu sem er hluti af Nordic Golf mótaröðinni. Mótið fer fram í Danmörku og eru leiknir þrír hringir.

Fyrirkomulagið er þannig að notast er við svokallaða Stableford stigagjöf þar sem ákveðið margir punktar fást á hverri holu eftir fjölda högga. Þannig fást fjórir punktar fyrir örn, þrír fyrir fugl, tveir fyrir par, einn fyrir skolla og enginn fyrir tvöfaldan skolla eða verra.

Eftir fyrsta hring er Axel í góðum málum en hann lék á 71 höggi í dag, eða einu höggi undir pari. Á hringnum fékk hann fimm fugla, tvo skolla, einn tvöfaldan skolla og restin pör og vann sér því inn 37 punkta, einum punkti meira en fæst fyrir að leika allar holur á parinu. Axel er eins og staðan er núna jafn í 9. sæti en enn eiga einhverjir kylfingar eftir að ljúka leik.  

Andri Þór náði sér ekki á strik í dag en lék á 77 höggum eða fimm höggum yfir pari. Hann vann sér inn 31 punkt, fimm punktum minna en fæst fyrir að leika allar holur á parinu. Andri er eins og er jafn í 65. sæti og þarf að leika vel á morgun til að komast í gegnum niðurskurðinn.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.

Icelandair Betra verð til Kanada 640
Icelandair Betra verð til Kanada 640