Fréttir

Nordic Golf: Axel kominn upp í 14. sæti stigalistans
Axel Bóasson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 18. ágúst 2019 kl. 10:40

Nordic Golf: Axel kominn upp í 14. sæti stigalistans

Þegar átta mót eru eftir af tímabilinu á Nordic Golf mótaröðinni eru þrír íslenskir kylfingar meðal 14 efstu á stigalista mótaraðarinnar.

Einn þeirra, Axel Bóasson GK, náði sínum besta árangri á Ahus KGK Pro/Am mótinu sem kláraðist á laugardaginn þegar hann endaði í 2. sæti. Fyrir helgina var Axel í 29. sæti stigalistans og fór hann því upp um 15 sæti milli vikna.

Í lok tímabils öðlast fimm efstu kylfingar stigalistans þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári. Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur þó nú þegar öðlast þátttökurétt því hann hefur sigrað á þremur mótum á tímabilinu.

Næsta mót á Nordic Golf mótaröðinni er Esbjerg Open mótið sem fer fram dagana 21.-23. ágúst næstkomandi.

Staða íslensku kylfinganna á Nordic Golf mótaröðinni:

3. Guðmundur Ágúst Kristjánsson
8. Haraldur Franklín Magnús
14. Axel Bóasson
134. Andri Þór Björnsson
149. Aron Bergsson

Hér er hægt að sjá stöðuna á stigalistanum.