Fréttir

Nordic Golf: Axel og Haraldur báðir áfram
Axel Bóasson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 16. ágúst 2019 kl. 18:30

Nordic Golf: Axel og Haraldur báðir áfram

Þeir Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús komust báðir áfram á lokadag Åhus KGK ProAm mótsins en hann verður leikinn á morgun. Annar hringur mótsins var leikinn í dag og áttu báðir ágætis dag á vellinum. Axel er eftir daginn jafn í 15. sæti á meðan Haraldur er jafn í 29. sæti.

Axel lék fyrri níu holurnar á höggi yfir pari þar sem hann fékk einn fugl, tvo skolla og restina pör. Eftir sex pör í röð á síðari níu holunum fékk Axel tvo fugla í röð og kom sér því undir par og endaði hringinn á 69 höggum, eða höggi undir pari. Hann er samtals á tveimur höggum yfir pari.

Líkt og Axel var Haraldur á höggi yfir pari eftir níu holur með tvo skolla, einn fugl og sex pör. Á síðari níu holunum fékk Haraldur einn fugl og restina pör. Hann kom því í hús á 70 höggum, eða pari vallar, og er eftir daginn á samtals fjórum höggum yfir pari.


Haraldur Franklín Magnús.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson var einnig á meðal keppenda. Hann lauk leik fyrr í dag en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.