Fréttir

Nordic Golf: Guðmundur Ágúst efstur á 8 höggum undir pari
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Þriðjudagur 12. febrúar 2019 kl. 15:32

Nordic Golf: Guðmundur Ágúst efstur á 8 höggum undir pari

Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, fór virkilega vel af stað á Mediter Real Estate Masters mótinu á Nordic Golf mótaröðinni í dag þegar hann lék fyrsta hringinn á 8 höggum undir pari.

Leikið er á tveimur völlum á PGA Catalunya svæðinu í Barselóna og lék Guðmundur fyrsta hringinn á Stadium vellinum.

Guðmundur lék óaðfinnanlegt golf, fékk sex fugla og einn örn á hring dagsins og kom því inn á 64 höggum eða 8 höggum undir pari. Hann er í efsta sæti í mótinu, þremur höggum á undan næsta manni.


Skorkort Guðmundar.

Andri Þór Björnsson fór einnig vel af stað í mótinu og kom inn á 3 höggum undir pari á Tour vellinum. Hann er jafn í 7. sæti. 

Haraldur Franklín Magnús er jafn í 21. sæti en hann kom vel til baka eftir að hafa byrjað á 10. teig og verið á 2 höggum yfir pari eftir 12 holur.

Axel Bóasson er neðstur af íslenska hópnum en hann lék fyrsta hringinn á 2 höggum yfir pari og er jafn í 56. sæti.

Alls eru leiknir þrír hringir í mótinu sem lýkur á miðvikudaginn. Hér er hægt að sjá stöðuna. 

Ísak Jasonarson
[email protected]