Fréttir

Nordic Golf: Haraldur jafn í 7. sæti eftir tvo hringi
Haraldur Franklín Magnús
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 22. ágúst 2019 kl. 13:30

Nordic Golf: Haraldur jafn í 7. sæti eftir tvo hringi

Annar hringur á Esbjerg Open mótinu á Nordic Golf mótaröðinni var leikinn í Danmörku í dag. Fjórir íslenskir kylfingar eru á meðal keppenda, þeir Andri Þór Björnsson, Aron Bergsson, Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús. 

Haraldur Franklín lék vel í dag, kom í hús á 69 höggum eða tveimur höggum undir pari. Á hringnum í dag fékk Haraldur fimm fugla, þrjá skolla og restin pör. Enn eiga nokkuð margir kylfingar eftir að ljúka leik en þegar þetta er skrifað er Haraldur jafn í 7. sæti.

Axel, Andri og Aron náðu sér ekki á strik í dag. Axel lék hringinn á 77 höggum, 6 höggum yfir pari, og er því samtals á 9 höggum yfir pari. Eins og staðan er núna miðast niðurskurðurinn við þá sem eru á 9 höggum yfir pari eða betur og því óvíst hvort Axel komist í gegnum niðurskurðinn. 

Andri náði ekki að fylgja eftir fínum hring gærdagsins og kom í hús á 80 höggum eða 9 höggum yfir pari. Hann er samtals á 11 höggum yfir pari og kemst eins og staðan er núna ekki í gegnum niðurskurðinn.

Aron lék hringina tvo báða á 81 höggi, 10 höggum yfir pari, er samtals á 20 höggum yfir pari og hefur því lokið leik í þessu móti.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.