Fréttir

Nordic Golf: Haraldur kominn upp í 7. sæti stigalistans
Haraldur Franklín Magnús.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 8. júlí 2019 kl. 15:00

Nordic Golf: Haraldur kominn upp í 7. sæti stigalistans

Eftir frábæran árangur íslensku kylfinganna á Nordic Golf mótaröðinni undanfarnar vikur og mánuði eru tveir kylfingar meðal 10 efstu á stigalista hennar og þrír í heildina meðal 30 efstu.

Haraldur Franklín Magnús og Axel Bóasson enduðu í 2. og 3. sæti á Camfil Nordic Championship sem kláraðist á laugardaginn og fara þeir báðir upp listann sem var uppfærður í kjölfarið.

Haraldur situr nú í 7. sæti og nálgast sæti á Áskorendamótaröðinni en fimm efstu í lok tímabilsins fá þátttökurétt á þeirri mótaröð. Haraldur hefur endað meðal 10 efstu í síðustu fjórum mótum og þar af tvisvar í öðru sæti.

Guðmundur Ágúst er sem fyrr efstur af íslensku kylfingunum en hann er í 3. sæti eftir tvo sigra á tímabilinu. Guðmundur er með 19.844 stig samanborið við 16.774 stig hjá Haraldi sem sýnir hve jöfn baráttan um efstu sætin er.

Sigurvegari mótaraðarinnar árið 2017, Axel Bóasson, hefur verið að ná sér á strik aftur undanfarnar vikur og er nú kominn upp í 26. sæti stigalistans eftir að hafa verið nær 100. sæti í vor. Axel hefur endað í topp-10 í fjórum af síðustu sex mótum.

Auk Haraldar, Guðmundar og Axels hafa þeir Andri Þór Björnsson og Aron Bergsson einnig leikið á mótaröðinni á þessu tímabili.

Staða íslensku kylfinganna á Nordic Golf stigalistanum:

3. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, 19.844 stig
7. Haraldur Franklín Magnús, 16.774 stig
26. Axel Bóasson, 7.458 stig
111. Andri Þór Björnsson, 876 stig
147. Aron Bergsson, 470 stig

Hér er hægt að sjá stöðuna á stigalistanum.

Næsta mót á mótaröðinni fer fram dagana 10.-12. júlí og ber heitið Svea Leasing Open. Þar verða þeir Guðmundur, Andri, Axel, Aron og Haraldur allir meðal keppenda.

Icelandair Betra verð til Kanada 640
Icelandair Betra verð til Kanada 640