Fréttir

Nordic Golf: Haraldur komst áfram í Svíþjóð
Haraldur Franklín Magnús.
Fimmtudagur 23. maí 2019 kl. 12:27

Nordic Golf: Haraldur komst áfram í Svíþjóð

Haraldur Franklín Magnús, GR, komst í dag í gegnum niðurskurðinn á Elisefarm Open mótinu sem er hluti af Nordic Golf mótaröðinni.

Haraldur lék annan hring mótsins á 3 höggum undir pari og er samtals á höggi undir pari í mótinu fyrir lokahringinn sem fer fram á morgun.

Byrjunin á hring dagsins hjá Haraldi lofaði ekki góðu en hann var kominn tvö högg yfir par eftir fjórar holur eftir einn tvöfaldan skolla og annan skolla. Hann var hins vegar ekki lengi að vinna þau högg til baka en hann fékk fugl á 5. og 7. holu áður en hann fékk örn á 9. og 14. holu. Skorkort hans má sjá hér fyrir neðan.

Þegar fréttin er skrifuð er Haraldur jafn í 19. sæti.

Kristófer Orri Þórðarson er einnig á meðal keppenda í mótinu. Hann er úr leik að þessu sinni eftir að hafa leikið hringina tvo á 8 höggum yfir pari í heildina. Á hring dagsins var hann á höggi undir pari eftir 15 holur og búinn að vinna sig nálægt niðurskurðarlínunni en skolli á 16. holu og þrefaldur skolli á 18. holu gerðu útaf við möguleika hans á því að komast áfram.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
[email protected]