Fréttir

Norðmaðurinn ungi efstur af áhugamönnunum
Viktor Hovland.
Laugardagur 13. apríl 2019 kl. 12:30

Norðmaðurinn ungi efstur af áhugamönnunum

Sex áhugakylfingar hófu leik á fimmtudaginn á Masters mótinu sem fer fram á Augusta National vellinum í Georgíu. Fjórir af þessum sex kylfingum komust í gegnum niðurskurðinn og eiga tveir þeirra raunhæfan möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna.

Norðmaðurinn Viktor Hovland hefur leikið best til þessa en hann er jafn í 29. sæti eftir tvo hringi á höggi undir pari. Hann er meðal annars jafn sigurvegara síðasta árs, Patrick Reed, og þrefalda risameistaranum Jordan Spieth.

Hovland öðlaðist þátttökurétt í mótinu þegar hann sigraði á Opna bandaríska áhugamannamótinu en hann situr í dag í 3. sæti heimslista áhugamanna í golfi.

Alvaro Ortiz er svo næst hæstur af áhugamönnunum en hann er höggi á eftir Hovland í 36. sæti. Ortiz, sem er frá Mexíkó, lék síðustu 5 holurnar á öðrum hringnum á 4 höggum undir pari og sýndi engin veikleikamerki þegar mest á reyndi.

Þriðji hringur Masters mótsins fer fram í dag. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða áhugakylfinganna eftir tvo hringi:

29. sæti: Viktor Hovland, -1
36. sæti: Alvaro Ortiz, par
57. sæti: Devon Bling, +3
57. sæti: Takumi Kanaya, +3
Komst ekki áfram: Kevin O'Connell, +4
Komst ekki áfram: Jovan Rebula, +8

Ísak Jasonarson
[email protected]