Fréttir

Ólafía: Mér gengur venjulega vel á erfiðum völlum
Ólafía Þórunn fékk þrjá fugla á síðustu fjórum holum úrtökumótsins.
Þriðjudagur 7. maí 2019 kl. 09:00

Ólafía: Mér gengur venjulega vel á erfiðum völlum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, tryggði sér í gær þátttökurétt á Opna bandaríska mótinu í golfi með því að sigra á úrtökumóti sem fór fram í Colorado. Ólafía lék á 5 höggum undir pari í úrtökumótinu en nánar má lesa um það með því að smella hér.

Þetta er annað árið í röð sem Ólafía Þórunn tryggir sér þátttökurétt á Opna bandaríska mótinu en í fyrra komst hún ekki í gegnum niðurskurðinn.

„Þetta er frábært,“ sagði Ólafía í viðtali við Colorado Golf eftir úrtökumótið. „Ég lagði mikið á mig fyrir þetta og er að uppskera sem er mjög flott.

Ég kann vel við vellina á risamótunum en þeir eru jafnan mjög góð áskorun, sérstaklega á Opna bandaríska. Þetta var klikkað í fyrra. Mér gengur venjulega vel á erfiðum völlum þannig að ég er mjög spennt.“

Ólafía var svo spurð að því hvernig það væri að spila á sterkustu mótaröðum heims, sérstaklega því hún væri frá Íslandi.

„Það er áskorun. Ég er sú sem ryður veginn. Ég get í raun ekki beðið neinn frá Íslandi um ráð, en ég hef verið heppin. Ég hef eignast góða vini á LPGA mótaröðinni sem hafa hjálpað mér. Sandra Gal var eins og stóra systir mín fyrsta árið mitt og svo er það Cheyenne Woods en við vorum saman í Wake Forest. Þannig að ég hef verið mjög heppin að geta spurt þær.“

Ísak Jasonarson
[email protected]