Fréttir

Olesen fær að spila þegar Evrópumótaröð karla fer aftur af stað
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 3. júlí 2020 kl. 16:50

Olesen fær að spila þegar Evrópumótaröð karla fer aftur af stað

Fimmfaldur sigurvegari á Evrópumótaröð karla, Thorbjörn Olesen, hefur fengið grænt ljós á að snúa aftur á mótaröðina seinna í þessum mánuði þegar Evrópumótaröðin fer aftur af stað.

Olesen hefur undanfarna mánuði verið í banni frá keppni á mótaröðinni á meðan dómsmál hans hefur farið fram. Þar sem málinu hefur verið frestað til desember fær hann hins vegar að snúa aftur á mótaröðina.

Olesen var kærður fyrir hegðun sína þegar hann flaug frá Nashville til London í ágúst í fyrra en þar á hann að hafa veist að konu og pissað á gólfið í vélinni áður en hann sofnaði en Golf Channel greindi frá því að Ian Poulter hafi verið á meðal þeirra sem hafi reynt að róa Olesen niður.

Haft er eftir Evrópumótaröðinni að þangað til dómsmál haldi áfram muni mótaröðin ekki skipta sér meira að málinu.

„Þetta verður endurskoðað eftir niðurstöðu dómsmálsins en þar sem málið er enn í gangi mun Evrópumótaröðin ekki tjá sig frekar um atvikið að þessu sinni.“

Fyrsta mótið á Evrópumótaröðinni eftir Covid-19 pásuna verður Austrian Open sem fer fram dagana 9.-12. júlí.

Sjá einnig:

Olesen sakaður um kynferðislega áreitni í flugi