Fréttir

Óþarfi fyrir Valdísi að fara í úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina
Valdís Þóra Jónsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 15. janúar 2020 kl. 23:05

Óþarfi fyrir Valdísi að fara í úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina

Þegar Valdís Þóra Jónsdóttir endaði síðasta tímabil á Evrópumótaröð kvenna í 71. sæti var ljóst að hún hafði endað árið einungis einu sæti frá því að halda fullum þátttökurétti á mótaröðinni.

Valdís greindi frá því á Facebook síðu sinni í desember að það væri auðvelt að finna högg hér og þar sem hefðu farið úrskeiðis en að það þýddi þó lítið að hugsa þannig. Á þeim tímapunkti var hún ekki viss hvort hún þyrfti að fara í úrtökumótin sem fara nú fram á Spáni til þess að freista þess að öðlast fullan þátttökurétt á mótaröðinni.

„Evróputúr kvenna er að taka miklum breytingum á næsta ári og verða fleiri mót heldur en hafa verið síðustu ár og það er jákvætt. Ég mun ræða við mitt teymi á næstu dögum hvað sé besta leiðin fyrir mig á næsta ári og því ekkert stress,“ sagði Valdís.

Nú þegar skráningarfrestur í lokaúrtökumótið er liðinn og Valdís ekki skráð til leiks hafði Kylfingur samband við Valdísi sem tjáði miðlinum að í raun væri óþarfi fyrir hana að keppa í mótunum þar sem þátttökuréttur hennar mun tryggja henni þátttöku í flestum mótum ársins.

„Ég mun komast inn í lang flest mótin með mínum þátttökurétti þannig að ég þurfti í raun ekki á því að halda að fara í úrtökumótið,“ sagði Valdís sem heldur út á morgun til að taka þátt í nokkrum atvinnumótum á næstu vikum í Ástralíu.

„Ég flýg af stað á fimmtudaginn og byrja á fjórum Pro/Am mótum sem eru hluti af ástralska túrnum... þau gefa mér séns á að komast inn í tvö LPGA mót sem eru þarna niður frá og svo fer ég í tvö LET mót.“

Valdís byrjaði árið einnig í Ástralíu í fyrra og náði þar til að mynda sínum besta árangri þegar hún endaði í 5. sæti á Women's NSW Open.