Fréttir

Ótrúlegar staðreyndir um sigur McIlroy
Rory McIlroy.
Þriðjudagur 19. mars 2019 kl. 21:00

Ótrúlegar staðreyndir um sigur McIlroy

Rory McIlroy fékk að launum hæsta verðlaunafé í sögu PGA mótaraðarinnar á sunnudaginn þegar hann fagnaði sigri á Players meistaramótinu. Hann fékk að launum 2,25 milljón dollara, sem samsvarar rétt um 265 milljónum íslenskra króna.

Með sigrinum komst McIlroy upp í 11. sæti yfir tekjuhæstu kylfinga í sögu mótaraðarinnar með samtals 45.514.482 dollara úr þeim 156 mótum sem hann hefur tekið þátt í. Það reiknast til að McIlroy hefur að meðaltali fengið 291.760 dollarar í hverju móti sem hann hefur tekið þátt í.

Verðlaunaféið úr þessu móti út af fyrir sig hefði skilað McIlroy í 420. sæti yfir tekjuhæstu kylfinga sögunnar og er hann þá á undan mönnum eins og Tom Weiskopf og Gary Player. Það ber þó að nefna að tímarnir hafa breyst töluvert síðan þessir menn léku á mótaröðinni en athyglisvert engu að síður.

Weiskopf sigraði á sínum tíma á 16 mótum (einu fleira en McIlroy) af þeim 446 sem hann keppti í. Samtals þénaði hann yfir ferilinn 2.241.687 dollara, sem gerir að meðaltali 5.026 dollarar á mót.

Gary Player ættu allir að þekkja en hann er að margra mati talinn einn besti kylfingur sögunnar. Hann vann á sínum tíma 24 mót á PGA mótaröðinni og þar af níu risamót. Á þeim 20 árum og í þeim 446 mótum sem hann lék í á mótaröðinni þénaði hann „aðeins“ 1.834.482 dollar, sem þýðir að hann vann að meðaltali 4.085 dollar í hverju móti.

Þetta eru órúlegar tölur og sýna það hversu mikið fjárhæðir í golfíþróttinni hafa breyst í gegnum árin líkt og í öðrum íþróttum.