Fréttir

Parnevik fékk víti fyrir að taka ekki „mulligan“
Jesper Parnevik.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 15. október 2019 kl. 12:36

Parnevik fékk víti fyrir að taka ekki „mulligan“

Allir sem hafa spilað golf hafa á einhverjum tímapunkti tekið svokallaðan „mulligan“, þar sem kylfingur endurtekur höggið án þess að telja fyrra höggið. Að sjálfsögðu gera kylfingar þetta aðeins þegar þeir eru að æfa sig og er þetta að öllu jöfnu bannað þegar verið er að keppa. Svíinn Jesper Parnevik braut hins vegar reglurnar þegar að hann tók ekki „mulligan“ í móti nýverið.

Á lokahring SAS Championship mótsins á Tour Champions mótaröðinni (öldungamótaröð PGA mótaraðarinnar) var Parnevik að klára stutt pútt fyrir skolla. Púttið heppnaðist þó ekki betur en svo að það krækti og fór ekki ofan í holuna heldur í fótinn á Parnevik. Hann kláraði því púttið og hélt að hann hefði fengið tvöfaldan skolla. Nema hvað að það var ekki rétt.

Málið var það flókið að aðaldómari mótsins varð að hafa samaband við USGA (bandaríska golfsambandið) til að fá skoruð úr um hvað skildi gert. 

Dómarinn Brian Claar vildi meina að hann hefði leikið boltanum frá vitlausum stað eftir að boltinn hafi farið í fótinn á Parnevik.

„Þegar bolti er á flöt og fer óvart í manneskju, dýr eða óhreyfanlega hindrum, þá telur höggið ekki og þú verður að endurtaka höggið frá þeim stað sem boltinn var áður“, sagði Claar.

Þar sem Parnevik kláraði púttið frá þeim stað sem boltinn endaði eftir að hafa rekist í fótinn á honum þá lék hann boltanum frá vitlausum stað. Hann hefði átt að endurtaka púttið sem var fyrir skolla.

Þar sem hann hefði átt að endurtaka höggið telur fyrra púttið ekki en seinna púttið gerir það og þar sem hann lék því frá vitlausum stað fær hann tvö högg í víti. Hann fékk því sjö högg á holuna í stað sex eins og hann hélt.

Svona geta golfreglurnar nú verið flóknar.