Fréttir

Það tók Garrick Higgo aðeins tvö mót til að landa sínum fyrsta sigri á PGA mótaröðinni
Garrick Higgo.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 13. júní 2021 kl. 21:19

Það tók Garrick Higgo aðeins tvö mót til að landa sínum fyrsta sigri á PGA mótaröðinni

Það tók Suður-Afríkubúann Garrick Higgo aðeins tvö mót til að landa sínum fyrsta titli á PGA mótaröðinni en hann stóð uppi sem sigurvegari eftir spennandi lokadag á Palmetto Meistaramótinu.

Higgo hefur leikið gríðarlega vel undanfarið og hefur til að mynda unnið þrjú mót á Evrópumótaröðinni á síðustu níu mánuðum. Vegna góðrar spilamennsku undanfarið fékk hann boð um að leika í mótum á PGA mótaröðinni og var þetta aðeins annað mótið hans. Sigurinn var þó alls ekki öruggur þar sem hann var mest allan daginn einhverjum höggum á eftir Chesson Hadley.

Allt leit út fyrir að Hadley væri að sigla sigrinum í höfn þegar hann átti þrjár holur eftir. Þá var Hadley á 13 höggum undir pari og næstu menn á 11 höggum undir pari. Á meðan Hadley fékk skolla á bæði 16. og 17. holunni þá fékk Higgo par. Staðan var því jöfn fyrir lokaholuna en Higgo var í ráshópnum á undan Hadley. Higgo náði í parið á lokaholunni en Hadley tapaði enn öðru högginu og endaði því Higgo einn á 11 höggum undir pari.

Higgo er í leiðinni fyrsti kylfingurinn undir 22 ára til að vinna mót á PGA mótaröðinni síðan Gary Player gerði það árið 1958.