Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

PGA: Bræður saman í liði á Zurich Classic
Brooks Koepka leikur með bróður sínum, Chase, á Zurich Classic.
Þriðjudagur 23. apríl 2019 kl. 21:08

PGA: Bræður saman í liði á Zurich Classic

Zurich Classic mótið er mót vikunnar á PGA mótaröðinni. Leikið er á TPC Louisiana golfvellinum í New Orleans og hafa þeir Billy Horschel og Scott Piercy titil að verja.

Zurich Classic mótið er einstakt að því leiti að um er að ræða eina mótið á tímabilinu á PGA mótaröðinni þar sem leikið er í liðum.

Fréttamiðillinn Golfweek tók á dögunum saman hvaða liðum fólk ætti að fylgjast sérstaklega með í mótinu:

Patrick Reed og Patrick Cantlay: Þriðja árið sem þeir leika saman í mótinu. Tveir kylfingar sem eru ekki þeir vinsælustu á mótaröðinni og virðast kunna ágætlega við það. Gætu leikið saman í Forsetabikarnum í haust miðað við spilamennsku Cantlay undanfarna mánuði.

Sergio Garcia og Tommy Fleetwood: Evrópubúarnir eru tveir af þeim líklegustu til að fagna sigri í mótinu en þeir hafa þó aldrei spilað saman. Það verður áhugavert að fylgjast með þessum tveimur.

Brooks Koepka og Chase Koepka: Þrefaldi risameistarinn Brooks Koepka verður með bróður sínum Chase Koepka í mótinu að þessu sinni. Chase keppir vanalega í Evrópu en með sigri um helgina gæti hann öðlast þátttökurétt á PGA mótaröðinni.

Jason Day og Adam Scott: Ástralarnir Day og Scott eru taldir líklegastir til sigurs. Scott er mættur aftur í topp-25 á heimslista karla í golfi í fyrsta sinn frá árinu 2017 og Day hefur leikið flott golf undanfarnar vikur. Þeir félagarnir verða svo í eldlínunni í haust þegar Forsetabikarinn fer fram.

Jason Dufner og Pat Perez: Tveir fyndnustu kylfingar PGA mótaraðarinnar. Perez mætir aftur á mótaröðina eftir meiðsli í hásin. Búist var við því að Perez væri lengur frá en þetta er liðið sem endaði í öðru sæti í mótinu í fyrra.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is