Fréttir

PGA: DeChambeau og Fowler í toppbaráttunni
Kevin Kisner er í forystu á Rocket Mortgage Classic.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 2. júlí 2020 kl. 23:07

PGA: DeChambeau og Fowler í toppbaráttunni

Fyrsti hringur Rocket Mortgage Classic mótsins fór fram í dag á PGA mótaröðinni í golfi. Þrír kylfingar deila efsta sætinu á 7 höggum undir pari fjölmargir kylfingar léku vel á fyrsta keppnisdegi.

Kylfingarnir þrír sem leiða eru Doc Redman, Scott Stallings og Kevin Kisner en Redman fór hamförum á síðustu 8 holum dagsins þar sem hann fékk 7 fugla.

Umtalaðasti kylfingur mótaraðarinnar, Bryson DeChambeau, er einn af sjö kylfingum sem deila fjórða sætinu á 6 höggum undir pari. DeChambeau fékk fjóra skolla á hringnum sem var ansi skrautlegur en búast má við að hann blandi sér í baráttu um sigur um helgina.

Af öðrum kylfingum ber helst að nefna að Rickie Fowler lék á 5 höggum undir pari, Webb Simpson lék á 4 höggum undir pari og sigurvegari síðasta árs, Nate Lashley, hóf titilvörnina á höggi undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.