Fréttir

PGA: Fowler og Scheffler á toppnum
Rickie Fowler.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 18. janúar 2020 kl. 09:00

PGA: Fowler og Scheffler á toppnum

Annar hringur The American Express mótsins var leikinn í gær og hafa skor mótsins verið frábær það sem af er móti. Eftir tvo hringi eru 133 kylfingar undir pari af 156 kylfingum sem hófu mótið. Enginn hefur þó leikið betur en þeir Rickie Fowler og Scottie Scheffler.

Þeir félagar eru á samtals 15 höggum undir pari eftir tvo hringi. Leikið er á þremur völlum; Nicklaus Tournament vellinum, La Quinta vellinum og Stadium vellinum. Bæði Fowler og Scheffeler léku á Nicklaus Tournament vellinum og léku þeir báðir á 64 höggum í gær, eða átta höggum undir pari. Fowler fékk sex fugla og einn örn á hringnum á meðan Scheffler fékk einn örn, átta fugla og einn skramba.

Andrew Landry er einn í öðru sæti á 14 höggum undir pari eftir hringi upp á 66 og 64 högg. Hann lék á La Quinta vellinum í gær og fékk níu fugla, einn skolla og restina pör. Tony Finau er svo einn í fjórða sæti á 13 höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.