Fréttir

PGA: Frábær hringur Leishman tryggði honum sigurinn
Marc Leishman.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 26. janúar 2020 kl. 21:32

PGA: Frábær hringur Leishman tryggði honum sigurinn

Lokadagur Farmers Insurance Open mótsins fór fram í dag. Það var mikil spenna á lokametrunum en svo fór að lokum að Ástralinn Marc Leishman fagnaði sigri eftir frábæran lokahring.

Leishman hóf daginn fjórum höggum á eftir Jon Rahm sem var í forystu fyrir daginn. Á meðan Rahm átti erfitt uppdráttar til að byrja með lék Leishman við hvern sinn fingur og fékk til að mynda sex fugla á fyrstu 13 holunum. Hann tapaði svo höggi á 17. holunni en vann það til baka með fugli á 18. holunni. 

Rahm var á þremur höggum yfir pari eftir 12 holur en tókst með mikilli seiglu að koma sér á tvö högg undir par. Það dugði þó ekki því hann endaði á 14 höggum undir pari sem var einu höggi verr en Leishman sem endaði á 15 höggum undir pari. Rahm átti pútt á lokaholunni til að jafna við Leishman en boltinn vildi ekki ofan í.

Leishman lék lokahringinn á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari. Þetta var hans fimmti sigur á mótaröðinni en síðasti sigur hans kom árið 2018 þegar að hann bar sigur úr býtum á CIMB Classic mótinu.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.