Fréttir

PGA: Frábær lokahringur tryggði Cantlay sigurinn
Patrick Cantlay.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 26. október 2020 kl. 19:43

PGA: Frábær lokahringur tryggði Cantlay sigurinn

Bandaríkjamaðurinn Patrick Cantlay gerði sér lítið fyrir og vann upp þriggja högga forystu Justin Thomas á lokadegi ZOZO Championship mótsins og tryggði sér þar með sinn þriðja sigur á mótaröðinni.

Cantlay byrjaði daginn á 16 höggum undir pari á meðan Justin Thomas var á 19 höggum undir pari. Að loknum níu holum var Cantlay einn tveimur höggum á eftir Thomas og Jon Rahm sem byrjaði daginn höggi á eftir Thomas. Á síðari níu holunum snérist leikurinn heldur betur við og á meðan Rahm og Thomas léku báðir á pari vallar lék Cantlay frábært golf þar sem að hann fékk fjóra fugla og einn skolla.

Hann kom því í hús á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari, og endaði hann mótið samtals á 23 höggum undir pari. Á meðan enduðu Thomas og Rahm á samtals 22 höggum undir pari.

Russell Henley varð fjórði á 19 höggum undir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.