Fréttir

PGA: Fyrsti sigur Pan á meðan Johnson lék skelfilega
C.T. Pan. Mynd: golfsupport.nl
Mánudagur 22. apríl 2019 kl. 08:45

PGA: Fyrsti sigur Pan á meðan Johnson lék skelfilega

Lokahringur RBC Heritage mótsins fór fram í gær á PGA mótaröðinni. C.T. Pan fór með sigur af hólmi í mótinu eftir fjóra hringi á 12 höggum undir pari samtals.

Pan lék lokahringinn á fjórum höggum undir pari og varð að lokum höggi á undan Matt Kuchar sem hefur leikið vel á tímabilinu.

Þetta er fyrsti sigur Pan á mótaröðinni og fer hann fyrir vikið upp í 26. sæti stigalistans.

Patrick Cantlay, Scott Piercy og Shane Lowry deildu þriðja sætinu á 10 höggum undir pari.

Efsti kylfingur heimslistans, Dustin Johnson, fór einstaklega illa að ráði sínu á lokahringnum eftir að hafa verið með forystu eftir þrjá daga. Johnson lék lokahringinn á 6 höggum yfir pari og endaði í 28. sæti í mótinu. Johnson var á parinu eftir 10 holur á lokahringnum en frá 11.-15. holu fékk hann þrjá skolla og tvo tvöfalda skolla sem gerðu út um möguleika hans á sigri.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
[email protected]