Fréttir

PGA: Landry frábær undir lokin og fagnaði sigri
Andrew Landry.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 20. janúar 2020 kl. 08:00

PGA: Landry frábær undir lokin og fagnaði sigri

The American Express mótið á PGA mótaröðinni kláraðist seint í gær. Það var töluverð spenna á lokadegi mótsins en svo fór þó að lokum að Andrew Landry fagnaði tveggja högga sigri.

Fyrir lokadaginn voru þeir Landry og Scottie Scheffler efstir. Á meðan Scheffler náði sér ekki alveg á strik lék Landry frábært golf og var kominn sex högg undir par eftir 12 holur. Þá var forysta hans orðin fimm högg og virtist lítið ætla að koma í veg fyrir að sigurinn væri hans.

Landry fékk þá aftur á móti þrjá skolla í röð á meðan Abraham Ancer fékk þrjá fugla og var hann þá aðeins einu höggi á eftir. Scheffler fékk örn og var kominn tveimur höggum á eftir. Landry sló þá frábær golfhögg á 17. og 18. holu sem tryggðu honum sigurinn með tveimur höggm. 

Landry lék lokadaginn á 67 höggum eða fimm höggum undir pari, og endaði hann á samtals 26 höggum undir pari. Ancer varð í öðru sæti á 24 höggum undir pari og að lokum varð Scheffler í þriðja á 23 höggum undir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.