Fréttir

PGA meistaramótið fært á Southern Hills
PGA meistaramótið var síðast haldið á Southern Hills vellinum árið 2007 þegar Tiger Woods fagnaði sigri.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 26. janúar 2021 kl. 09:00

PGA meistaramótið fært á Southern Hills

Líkt og Kylfingur greindi frá á dögunum var ákveðið að færa PGA meistaramótið 2022 af Trump National golfklúbbnum í Bedminster. Ákvörðunin var tekin einungis nokkrum dögum eftir að stór hópur fólks réðst ólöglega og með valdi inn í bandaríska þinghúsið.

„Við vinnum fyrir okkar meðlimi, fyrir íþróttina, okkar markmið og okkar samtök,“ sagði Seth Waugh, framkvæmdastjóri PGA. „Hvernig stöndum við sem best vörð um þau? Okkur þótti ekki forsvaranlegt að halda mótið á Bedminster eftir hina sorglegu atburði síðasta miðvikudag. Tjónið hefði getað orðið óbætanlegt. Eina alvöru leiðin var að hætta við.“

Á mánudaginn kom svo tilkynning frá PGA of America þar sem kom fram að Southern Hills golfvöllurinn hafi orðið fyrir valinu og fer mótið fram þar dagana 16.-22. maí 2022.

Þetta er í fimmta skiptið sem PGA meistaramótið er haldið á Southern Hills vellinum en það fór síðast fram á vellinum árið 2007 þegar Tiger Woods fagnaði sigri.

Sigurvegarar á PGA meistaramótinu á Southern Hills vellinum:

2007: Tiger Woods
1994: Nick Price
1982: Raymond Floyd
1970: Dave Stockton