Fréttir

PGA: Mickelson sigldi sigrinum örugglega í höfn
Phil Mickelson.
Mánudagur 11. febrúar 2019 kl. 17:30

PGA: Mickelson sigldi sigrinum örugglega í höfn

AT&T Pebble Beach Pro-Am mótið var rétt í þessu að klárast og var það Phil Mickelson sem fagnaði sigri. Vegna veðurs í gær náðu kylfingar ekki að ljúka leik á fjórða hring fyrir myrkur og þurfti því að klára mótið í dag.

Aðeins nokkrir kylfingar voru enn eftir úti á velli, þar á meðal var Phil Mickelson. Hann var með þriggja högga forystu áður en leikur hófst að nýju og voru aðeins tvær holur eftir.

Mickelson lék síðustu tvær holurnar á höggi undir pari og endaði hann því lokahringinn á 65 höggum eða sjö höggum undir pari. Mótið endaði hann á 19 höggum undir pari.

Í öðru sæti varð Paul Casey, sem var í forystu fyrir lokahringinn. Hann lék lokahringinn á 71 höggi og endaði mótið á 16 höggum undir pari.

Þetta var 44. sigur Mickelson á PGA mótaröðinni.

Lokastöðuna má sjá hérna.