Fréttir

PGA: Smith byrjaði titilvörnina ágætlega
Cameron Smith.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 14. janúar 2021 kl. 22:43

PGA: Smith byrjaði titilvörnina ágætlega

Fyrsti keppnisdagur Sony Open mótsins á PGA mótaröðinni er í fullum gangi þegar þessi grein er skrifuð en sigurvegari síðasta árs, Cameron Smith, fór snemma af stað í dag og lauk leik á 3 höggum undir pari.

Smith sigraði á mótinu í fyrra eftir dramatískan lokahring en hann fór í bráðabana gegn Brendan Steele og sigraði eftir að hafa leikið hringina fjóra á 11 höggum undir pari. Byrjunin hans var ekki jafn góð það árið eins og má sjá hér fyrir neðan en hann var á fjórum höggum yfir pari strax eftir tvær holur.

Í dag fékk Ástralinn hárprúði þrjá fugla á hringnum og 15 pör og er þessa stundina jafn í 14. sæti af rúmlega 100 kylfingum sem eru búnir að spila eða eru úti á velli.

Smith er þó fimm höggum á eftir Peter Malnati sem leiðir í mótinu á 8 höggum undir pari. Malnati fékk alls 9 fugla á fyrsta hringnum og er tveimur höggum á undan næstu mönnum.

Enn eiga einhverjir kylfingar eftir að hefja leik á fyrsta keppnisdegi en hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.