Fréttir

PGA: Steele fer með þriggja högga forskot í lokahringinn
Brendan Steele
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 12. janúar 2020 kl. 11:55

PGA: Steele fer með þriggja högga forskot í lokahringinn

Þriðji hringur á Sony Open mótinu, sem leikið er á Havaí, fór fram í nótt. Fyrir hringinn voru tveir jafnir í forystu, þeir Brendan Steele og Cameron Davis. Þegar einum hring er ólokið er það hins vegar Steele sem er kominn í forystu en eftir góðan hring í gær er hann nú með þriggja högga forystu fyrir lokahringinn.

Hringinn í gær lék Steele á 64 höggum eða sex höggum undir pari. Fyrri 9 holurnar lék hann á einu höggi undir pari þar sem hann fékk einn örn, einn fugl og tvo skolla. Á seinni 9 holunum fékk hann svo fimm fugla og restin pör og kom því í hús á sex höggum undir pari. Samtals er Steele á 12 höggum undir pari, þremur höggum á undan Cameron Smith, sem situr í 2. sæti.

Smith lék hringinn í gær á fjórum höggum undir pari þar sem hann fékk fimm fugla, einn skolla og restin pör. Í 3. sæti situr svo Kevin Kisner en hann er samtals á 8 höggum undir pari eftir að hafa leikið annan hringinn á sex höggum undir pari líkt og Steele. 

Hér má sjá stöðuna í mótinu.