Fréttir

PGA: Swafford fagnaði sigri í Dóminíska lýðveldinu
Hudson Swafford.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 28. september 2020 kl. 14:35

PGA: Swafford fagnaði sigri í Dóminíska lýðveldinu

PGA mót helgarinnar fór fram í Dóminíska lýðveldinu og var það Bandaríkjamaðurinn Hudson Swafford sem bar sigur úr býtum. Mótið átti upphaflega að fara fram í mars á sama tíma og Heimsmótið í holukeppni en vegna aðstæðna var því frestað. Því verða tvö mót á tímabilinu 2020/2021 sem bera nafnið Corales Puntacana Resort and Club Championship. Síðara mótið mun fara fram dagana 25.-28. mars á næsta ári.

Swafford byrjaði daginn tveimur höggum á eftir Adam Long sem var í forystu. Á meðan Long lék á þremur höggum yfir pari og féll niður í fimmta sætið lék Swafford á 69 höggum, eða þremur höggum undir pari, og tryggði sér eins höggs sigur. Swafford endaði mótið á samtals 18 höggum undir pari.

Höggi á eftir Swafford varð Tyler McCumber en hann átti einn af bestu hringjum dagsins er hann kom í hús á 66 höggum, eða sex höggum undir pari.

Þetta er annar sigur Swafford á mótaröðinni og með sigrinum tryggði hann sér þátttökurétt á Players meistaramótinu á næsta ári, Masters mótinu á næsta ári og PGA meistaramótinu. Hann er einnig með öruggan keppnisrétt á PGA mótaröðinni út árið 2023.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.