Fréttir

PGA: Thomas höggi frá vallarmeti og er kominn í forystu
Justin Thomas. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 18. október 2019 kl. 08:37

PGA: Thomas höggi frá vallarmeti og er kominn í forystu

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas lék annan hringinn á CJ Cup mótinu í Suður-Kóreu á 9 höggum undir pari og er með tveggja högga forystu á næstu menn þegar mótið er hálfnað. Mótið er hluti af PGA mótaröðinni en Thomas sigraði einmitt á þessu móti árið 2017.

Thomas fékk fugla á fyrstu fjórar holur hringsins og var kominn sex undir eftir 10. „Almennt séð var þetta einn besti hringurinn minn í langan tíma,“ sagði Thomas eftir hringinn. „Þetta kom nokkuð auðveldlega til mín. Ég þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur á hringnum.“

Danny Lee og Byeong Hun An eru jafnir í öðru sæti á 11 höggum undir pari. An leiddi eftir fyrsta hringinn og lék á þremur höggum undir pari í nótt.

Jordan Spieth og Emiliano Grillo eru jafnir í fjórða sæti, fjórum höggum á eftir Thomas.

Efsti kylfingur heimslistans, Brooks Koepka, náði sér ekki á strik á öðrum hringnum og kom inn á 75 höggum eða þremur höggum yfir pari. Koepka hefur titil að verja.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.