Fréttir

PGA: Tiger í miklu stuði á þriðja hringnum og leiðir fyrir lokahringinn
Tiger Woods.
Laugardagur 22. september 2018 kl. 22:57

PGA: Tiger í miklu stuði á þriðja hringnum og leiðir fyrir lokahringinn

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods er í kjörstöðu til að vinna sitt fyrsta mót á PGA mótaröðinni frá árinu 2013 en hann er með þriggja högga forystu á TOUR Championship mótinu fyrir lokahringinn.

Woods fór af stað með miklum látum í dag en hann var kominn á 6 högg undir par eftir 7 holur og á þeim tímapunkti með fimm högga forystu í mótinu.

Woods náði þó ekki að fylgja því almennilega eftir en hann kláraði hringinn á 5 höggum undir pari sem var engu að síður lægsti hringur dagsins.

Fyrir lokahringinn er Woods með þriggja högga forystu á Rory McIlroy og Justin Rose. Woods er sex höggum á undan Kyle Stanley og Jon Rahm sem deila fjórða sætinu.

TOUR Championship er lokamót tímabilsins á PGA mótaröðinni. Á morgun, sunnudag, kemur í ljós hvaða kylfingur stendur uppi sem stigameistari. Líklega verður Justin Rose stigameistari en ef hann spilar illa á morgun og Woods vinnur gæti sá síðarnefndi stolið titlinum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
[email protected]