Fréttir

PGA: Viktor Hovland með forystu fyrir lokahringinn
Viktor Hovland
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 23. febrúar 2020 kl. 09:30

PGA: Viktor Hovland með forystu fyrir lokahringinn

Þriðji hringur á Puerto Rico Open mótinu á PGA mótaröðinni var leikinn í gær. Mótið er aukamót fyrir þá kylfinga sem komust ekki inn á Heimsmótið í Mexíkó. Fjórir kylfingar voru jafnir í efsta sæti eftir tvo hringi en það er Norðmaðurinn Viktor Hovland sem leiðir fyrir lokahringinn.

Hovaland lék hringinn í gær á 8 höggum undir pari og er samtals á 18 höggum undir pari. Á hringnum gerði hann engin mistök en fékk 8 fugla og restin pör. Hringur Hovland var þó ekki besti hringur dagsins en Martin Laird lék á 9 höggum undir pari í gær. Laird gerði sér lítið fyrir og fékk tvo erni, fimm fugla og restin pör á sínum hring og kom sér þar með upp í 2. sæti á samtals 17 höggum undir pari.

Josh Teater situr svo í 3. sæti en hann er á samtals 16 höggum undir pari, tveimur höggum frá efsta sæti. Það er því mjótt á munum og von á spennandi lokahring í dag.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.