Fréttir

PGA: Woods og Rose í forystu
Tiger Woods.
Laugardagur 22. september 2018 kl. 01:15

PGA: Woods og Rose í forystu

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods og Englendingurinn Justin Rose deila forystunni eftir tvo hringi á TOUR Championship mótinu sem er hluti af PGA mótaröðinni. Báðir eru þeir á 7 höggum undir pari á hinum erfiða East Lake velli í Atlanta.

Woods sló ekki jafn vel á öðrum hringnum og á þeim fyrsta en náði engu að síður að koma inn á 68 höggum og halda sér í efsta sætinu sem hann hafði deilt með Rickie Fowler eftir fyrsta hringinn. Fowler lék ekki nógu vel í dag, kom inn á 2 höggum yfir pari og datt niður í 8. sæti.

Efsti maður heimslistans, Justin Rose, heldur áfram að leika vel og er sem fyrr segir í efsta sæti mótsins að tveimur hringjum loknum. Miðað við stöðuna í mótinu er líklegt að Rose verði FedEx stigameistari en þó er mikið eftir.

Staða efstu manna:

1. Justin Rose, -7
1. Tiger Woods, -7
3. Rory McIlroy, -5
4. Billy Horschel, -4
4. Patrick Cantlay, -4
4. Jon Rahm, -4
4. Justin Thomas, -4

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

 

Ísak Jasonarson
[email protected]