Fréttir

PGA: Xander Schauffele sigraði eftir magnaðan lokahring
Xander Schauffele
Mánudagur 7. janúar 2019 kl. 03:07

PGA: Xander Schauffele sigraði eftir magnaðan lokahring

Fyrsta mót ársins á PGA mótaröðinni, Sentry Tournament of Champions, lauk í nótt og var það Xander Schauffele sem fagnaði sigri eftir hreint út sagt magnaðan lokahring.

Schauffele byrjaði lokadaginn fimm höggum á eftir Gary Woodland sem var í forystu. Eftir skolla á fyrstu holunni fékk Schauffele fjóra fugla á næstu sex holum. Hann vippaði síðan ofan í á níundu holunni frá um 16 metrum fyrir erni.

Á síðari níu holunum gerði hann svo enn betur en á 12. holunni sló hann ofan í frá um 100 metrum, aftur fyrir erni. Hann fékk svo fjóra fugla á síðustu fimm holunum og kom því í hús á 11 höggum undir pari eða 62 höggum. Samtals endaði hann á 23 höggum undir pari.

Gary Woodland átti möguleika á að jafna við Schauffele á lokaholunni en hann átti um þriggja metra fuglapútt til að komast 23 högg undir par. Púttið vildi ekki í holu og varð hann því að sætta sig við annað sætið á samtals 22 höggum undir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.