Fréttir

Prestur leikur á DP World Tour
Jastas Madoya presturinn frá Kenía sem sigraði á Uganda Golf Open.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
laugardaginn 4. desember 2021 kl. 17:07

Prestur leikur á DP World Tour

Fæstir kannast við nafn kylfingsins Jastas Madoya. Madoya þessi leikur á Safari mótaröðinni í Afríku.

Í dag sigraði hann á Tusker Malt Uganda Golf Open mótinu og tryggði sér þar með þátttökurétt á Kenya Open mótinu á DP World Tour sem fram fer í mars á næsta ári.

Madoya byrjaði ekki að spila golf fyrr en hann varð 17 ára gamall og gerðist atvinnumaður 2016. Honum gekk ekki vel til að byrja með og svo fór að hann missti alla styrktaraðila sína. 

Madoya dó ekki ráðalaus og hóf störf sem prestur í kirkju í heimalandi sínu Kenía. Hann vaknar klukkan 3 á morgnanna til að sinna skyldum sínum í kirkjunni. Þegar hann hefur lokið störfum þar æfir hann og spilar golf og heldur draumi sínum lifandi.