Fréttir

R&A búið að flýta rástímum vegna slæmrar veðurspár á lokadegi Opna mótsins
Shane Lowry.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 20. júlí 2019 kl. 22:47

R&A búið að flýta rástímum vegna slæmrar veðurspár á lokadegi Opna mótsins

Lokadagur Opna mótsins verður leikinn á morgun en mótið er leikið á Royal Portrush vellinum í Norður-Írlandi. Það er Írinn Shane Lowry sem er í forystu fyrir daginn eftir að leika þriðja hringinn á nýju vallarmeti, 63 höggum. Nánar má lesa um stöðu mótsins hérna.

Opna mótið er það risamót sem veðrið spilar hvað mesta rullu oft á tíðum. Hins vegar hefur veður verið með besta móti fyrstu þrjá keppnis daga og til marks um það hefur sólin látið meira sjá sig en rigningin og vindur hefur verið frekar lítill. Það er þó allar líkur á því að það breytist eitthvað lokadaginn því R&A, skipuleggjendur mótsins, hafa ákeðið að flýta rástímum á lokadeginum vegna slæmrar veðurspár. Fyrsta hollið fer því út klukkan 7:32 að staðartíma í stað 9:35 og lokahollið fer út klukkan 13:47 í stað 15:40.

Veðurspáin fyrir morgundaginn er þannig hljóðandi að fyrir hádegi verður bjart, með smá vind, það gengur síðan á með rigningu þegar nær dregur hádegi. Vindur byrjar að vera um 7 m/s og fer upp í 11 m/s í vindkivðum. Síðar um daginn verður vindurinn orðinn stöðugt í 9 m/s og í kviðum fer hann upp í 16 m/s.

Mótshaldarar hafa því varað áhorfendur við því mæta vel búna og tilbúin í mikla rigningu og mikið rok. Þó svo að forystu Lowry sé fjögur högg er ljóst að verðrið gæti leikið stóra rullu á lokadeginum.