Fréttir

Ragnar, Axel og Ragnhildur í forystu í KPMG Hvaleyrarbikarnum
Axel Bóasson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 19. júlí 2019 kl. 19:45

Ragnar, Axel og Ragnhildur í forystu í KPMG Hvaleyrarbikarnum

Fyrsti hringur KPMG Hvaleyrarbikarsins fór fram í dag á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Eftir fyrsta daginn eru þau Ragnar Már Garðarsson, Axel Bóasson og Ragnhildur Kristinsdóttir í forystu.

Aðstæður á Hvaleyrarvelli í dag voru misgóðar en fyrstu keppendur mótsins léku flestar holur í frábæru veðri en um hádegi tók að blása og spilaðist völlurinn því töluvert erfiðari fyrir þá kylfinga sem fóru seinna út.

Í kvennaflokki er Ragnhildur Kristinsdóttir í forystu á 4 höggum yfir pari. Ragnhildur byrjaði og endaði hringinn vel en hún fékk fugl á fyrstu holu og jafnframt fugla á 17. og 18. holu. GR-ingurinn er með eins höggs forystu á Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur, Helgu Kristínu Einarsdóttur, Evu Kareni Björnsdóttur og Amöndu Guðrúnu Bjarnadóttur.


Skorkort Ragnhildar.

Í karlaflokki léku þeir Ragnar Már og Axel á fjórum höggum undir pari og deila forystunni. Ragnar lék jafnt og stöðugt golf allan hringinn á meðan Axel fékk fimm fugla, einn skolla, einn tvöfaldan skolla og einn örn á sínum hring. Hlynur Bergsson og Ólafur Björn Loftsson eru jafnir í 3. sæti á 2 höggum undir pari.


Skorkort Ragnars.


Skorkort Axels.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu kylfinga í kvennaflokki:

1. Ragnhildur Kristinsdóttir, +4
2. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, +5
2. Helga Kristín Einarsdóttir, +5
2. Eva Karen Björnsdóttir, +5
2. Amanda Guðrún Bjarnadóttir, +5

Staða efstu kylfinga í karlaflokki:

1. Ragnar Már Garðarsson, -4
1. Axel Bóasson, -4
3. Hlynur Bergsson, -2
3. Ólafur Björn Loftsson, -2