Fréttir

Ragnar Már byrjaði vel á Pro Golf mótaröðinni í Póllandi
Ragnar Már Garðarsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 26. júní 2019 kl. 21:25

Ragnar Már byrjaði vel á Pro Golf mótaröðinni í Póllandi

Polish Open mótið hófst í dag en mótið er hluti af Pro Golf mótaröðinni. Þrír kylfingar úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar eru á meðal keppenda, þeir Hlynur Bergsson, Kristófer Orri Þórðarson og Ragnar Már Garðarsson. Af þeim þremur var Ragnar Már á besta skori dagsins, tveimur höggum undir pari.

Ragnar hóf leik á 1. teig í dag og hann byrjaði hringinn með miklum látum. Hann fékk fjóra fugla á fyrstu sjö holunum og endaði fyrri níu holurnar á þremur höggum undir pari. Hann fékk átta pör í röð á síðari níu holunum en fékk svo skolla á lokaholunni. Ragnar endaði því hringinn á tveimur höggum undir pari, eða 68 höggum, og er hann jafn í 18. sæti eftir daginn.

Hlynur hóf einnig leik á 10. teig og var hann á tveimur höggum yfir pari lengst af en góður endir kom honum aftur á parið. Hann endaði hringinn á 70 höggum, eða pari vallar, og er hann jafn í 39. sæti eftir daginn.

Kristófer lék á 72 höggum í dag, eða tveimur höggum yfir pari. Hann lék fyrri níu holurnar á höggi undir pari en fataðist flugið á þeim síðari og lék þær á þremur höggum yfir pari. Kristófer er jafn í 67. sæti eftir daginn.

Á morgun verður annar hringur mótsins leikinn og komast 40 efstu kylfingarnir áfram eftir morgundaginn. Stöðuna í mótinu má sjá hérna.


Hlynur Bergsson.


Kristófer Orri Þórðarson.