Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

Rahm: „Ég mun aldrei tapa eldmóðinum“
Jon Rahm.
Fimmtudagur 21. mars 2019 kl. 15:00

Rahm: „Ég mun aldrei tapa eldmóðinum“

Jon Rahm er mættur til leiks á Valspar mótinu sem hófst nú fyrir skömmu á PGA mótaröðinni. Í viðtölum fyrir mótið var hann mikið spurður út í lokadag Players mótsins og þá aðallega samskipti hans við kylfubera sinn, Adam Hayes.

Eins og frægt er orðið reyndi Rahm að slá högg sem engum þótti skynsamlegt nema honum sjálfum og eru margir á því að það hafi kostað hann sigurinn. Holurnar eftir þessi mistök virtist allt stefna í það að Rahm væri algjörlega að missa hausinn. Hann hélt þó nokkurn veginn haus, ólíkt U.S. Open árið 2017 þegar að hann kastaði kylfum og hrífum í reiði sinni.

Í viðtölum fyrir Valspar mótið sagði Rahm að hann myndi aldrei vilja missa eldmóðinn en hann vissi að hann gæti alveg gert betur undir ákveðnum kringumstæðum.

„Ég mun aldrei tapa eldmóðinum, hann er hluti af mér og fer aldrei. Ég er enn með mikið keppnisskap og ég verð enn reiður en ég vona bara að fólk sjái hversu mikið ég hef bætt mig að haga mér ekki eins og ég gerði áður fyrr.“

„Ég hef bætt mig mikið síðan á U.S. Open árið 2017. Lokahringurinn á Players mótinu var mikil vonbrigði, en þetta hjálpar, maður lærir.“

Tengdar fréttir:

Myndband: Höggið sem kostaði Rahm mögulega sigurinn

Rúnar Arnórsson
runar@vf.is

Icelandair (640 x 150)
Icelandair (640 x 150)