Fréttir

Rikki G er kylfingur vikunnar
Miðvikudagur 30. desember 2009 kl. 14:52

Rikki G er kylfingur vikunnar

Kylfingur vikunnar að þessu sinni er enginn annar en Ríkharð Óskar Guðnason, betur þekktur sem Rikki G á útvarpsstöðinni FM957. Hann er fæddur árið 1985 og er uppalinn Reykvíkingur. Hann hefur starfað sem útvarpsmaður á FM957 frá árinu 2004 og stýrir þættinum „Betri blandan“ sem og að kynna Íslenska listann á stöðinni. Hann er trúlofaðist árið 2008 en segir sjálfur að hann hafi einnig trúlofast golfinu árið 2006.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?

„Ég byrjaði fyrst í golfi 6 ára gamall þar sem amma og afi áttu sumarbústað í Öndverðanesi, þar byrjaði ég að slá í garðinum hjá þeim, svo þegar boltarnir fóru að færa sig nær húsum og bílum þótti mál til komið að setja mig út á völl. Golfið kenndi frændi minn mér sem starfaði lengi hjá klúbbnum m.a. sem formaður. Ég missti hinsvegar áhugan 10 ára gamall og vil ég meina að þar hafi ég gert mikil mistök, það var síðan fyrir tilviljun að ég spilaði hring í Grafarholtinu 2006 sem kveikti golfsýkina sem mun aldrei læknast. Sumarið 2007 gekk ég í GKG og fékk forgjöf og náði að koma mér í 24 í lok sumars, fór síðan í GKJ sumarið 2008 og hef verið þar síðan og ætla mér að vera þar áfram, frábært starf hjá klúbbnum og verður þetta fallegasti völlur landsins þegar framkvæmdum lýkur á seinni 9 holunum. Ég er kominn í 10,9 í forgjöf á þessum 3 árum en það hefur tekið óteljandi golfkennslutíma, ferðir á bása og hafa spilað nánast daglega út á velli.“

Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
„Fótboltinn tók við eftir golfið og æfði ég aðallega hjá Fylki í yngri flokkum, prófaði síðan körfubolta og handbolta en sá fljótt að það myndi engin framtíð skapast þar.“

Hver eru helstu markmiðin?

„Bæta fyrir mistökin að hafa hætt svona ungur og vera kominn í sama holl og Ian Poulter eftir 5 ár, ætla líka að vera kominn í skrautlegri klæðnað en hann.“

Helstu afrek í golfinu?

„Ég gerðist eitt sinn svo frægur að fá að spila með Ladda í 20 mínútur, við vorum tveir að spila og hann var einn á eftir okkur og buðum við honum að sameinast hollinu. Þetta er þegar ég var að byrja aftur og var þá sveiflan mín álíka góð og hjá Charles Barkley, hann var á svo mikilli hraðferð að hann bað okkur kurteisilega að fá að fara á undan þar sem ég tafði hann ekkert lítið en ég tel þetta afrek að fá að vera í sama holli og fyndnasti maður íslandssögunar.“

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
„Golffélagar mínir segja mér yfirleitt að ég sé ákveðið skemmtiatriði út á velli, hefur reyndar lagast eftir að forgjöfin fór að lækka en get nefnt mörg atriði eins og t.d. fyrsti hringurinn minn í Grafarholtinu 2006 eftir mörg ár, þá er ég að græja mig til upp á teig og þá var ræsirinn að tala við okkur eins og á mótaröðunum úti og ég með vönum mönnum í holli svo þá fór ég að svitna svona hrikalega og fullt af liði að fylgjast með, síðan var kastað upp á hver átti að byrja og auðvitað var það ég! Ég stillti mér upp með driverinn og áður en ég vissi af tók boltinn strax sveigju til hægri og stefndi beint á fólkið sem stóð við klúbbhúsið, ég kunni að sjálfsögðu ekki að segja FOR svo boltinn fór í hornið á húsinu og í hnéð á ræsinum sem var ekki parsáttur við að ég hafi ekki kallað FOR og ég kom að sjálfsögðu af fjöllum og allir skellihlæjandi þarna í kringum mig, hann slasaðist sem betur fer ekki, ég kláraði síðan fyrstu holu á 12 höggum! Annars skiptumst ég og Valtýr Björn golffélagi minn á að skemmta hollunum með hinum ýmsu uppákomum.“

Ferðu í golfferð til útlanda í ár og ef þá hvert?
„Nei en stefni á það um leið og skattarnir hækka enn meira.“

Hvað ætlar þú að gera til að lækka forgjöfina næsta sumar?
„Ég hef verið hjá Úlfari Jónssyni í kennslu sem er eðal náungi og á hann stóran þátt í þessari lækkun hjá mér og ætla mér að vera mikið með honum í allan vetur og fram á vor og stefnan er sett á 7,0 í September 2010.“

Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
„Styrkleikinn minn er endalaus áhugi og vilja læra nýja hluti og gera það almennilega, ég er einnig með nokkuð góð teighögg og helst frekar beinn. Hinsvegar á ég marga veikleika og sá stærsti skapið mitt! Ég á stundum til með að gefast upp ef illa gengur og hafa stundum kylfur, poki og regnhlífar fengið að finna fyrir því en ég hef reynt að laga þetta og reyni í staðinn að finna “The happy place” sem Gilmore gerði í þessari snilldar bíómynd.“

Hver er uppáhaldskylfingurinn (innlendur og erlendur) og af hverju?

„Ég hélt mikið upp á Payne Stewart á sínum tíma og þótti skemmtilegur og litríkur spilari, ég hinsvegar fylgist mikið með Ian Poulter í dag og finnst mér hann gefa golfinu mikið líf, eins og kylfingar vita þá er Poulter ekki að hugsa um aðra, klæðir sig eins og hann vill og hagar sér eins og hann vill en taugarnar hjá honum hafa oft svikið hann á risamótunum. Ég styð svo að sjálfsögðu afrekskylfingana í GKJ og er nóg til af þeim!“

Ef þú mættir breyta einni golfreglu hverju myndir þú breyta?
„Það er oft ansi stressandi að taka fyrsta höggið á hring svo það myndi róa taugarnar að vita til þess að maður ætti mulligan inni ef eitthvað myndi klikka.“

Atvinnumaður í fótbolta eða golfi?
„Hefði sagt fótbolti fyrir nokkrum árum en það er víst fokið í veður og vind en menn geta byrjað í atvinnumennsku eldgamlir í golfi svo það er nógur tími þar.“

Fylgist þú mikið með golfi (erlendum mótum eða mótaröðinni hér heima)?
„Ég fylgist mikið með golfi í sjónvarpi og mæli með því fyrir þá sem eru að byrja, það er ótrúlegt hvað er hægt að læra mikið á að fylgjast með þessu, ég sá öll risamótin í ár og fylgist ég einnig spenntur með Íslandsmótinu í sumar sem var ekki lítið góð auglýsing fyrir íþróttina hér á landi.“

Ertu besti kylfingurinn sem starfar á FM957?
„Ég var það ekki þegar ég byrjaði en er búinn að ná þeim markmiðum núna, það er samt ótrúlegt hvað það er mikill áhugi hjá mönnum þarna á stöðinni, Heiðar Austmann spilar reglulega, Svali sömuleiðis og svo er Gassi ótrúlega seigur líka þegar hann gefur sér tíma í þetta.“

Staðreyndir:
Nafn: Ríkharð Óskar Guðnason
Klúbbur: GKJ
Forgjöf: 10,9
Golfpokinn: Ogio golfpoki með Adams kylfum og Taylor made driver
Golfskór: Footjoy
Golfhanski: Callaway
Markmið í golfinu: Verða betri en Kjarri vinur minn næsta tímabil (hann er með c.a 6 í forgjöf)
Fyrirmynd: Shooter McGavin
Uppáhalds matur: Íslenska kjötsúpan
Uppáhalds drykkur: Ískalt Mix með klökum
Ég hlusta á: FM957 (surprise)
Besti völlurinn: Selsvöllur á Flúðum
Besta skor (hvar): 76 högg á Korpunni ágúst 2009.
Besta vefsíðan: kylfingur.is (svo þegar greinin mín fer út af síðunni þá er það fotbolti.net)
Besta blaðið: Fréttablaðið
Besta bókin: Mannasiðir Gillz
Besta bíómyndin: Shawshank Redemption