Fréttir

Rocco Mediate segist hafa spilað undir áhrifum áfengis
Rocco Mediate og Tiger Woods.
Föstudagur 8. febrúar 2019 kl. 10:00

Rocco Mediate segist hafa spilað undir áhrifum áfengis

Það þekkja eflaust flestir bandaríska kylfingin Rocco Mediate fyrir það að hafa spilað 18 holu umspil við Tiger Woods á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2008.

Mediate, sem nú er orðinn 56 ára, hefur unnið sex mót á PGA mótaröðinni og þrjú mót á PGA Champions mótaröðinni, sem er öldungamótaröð PGA. Í viðtali sem birtist á GolfChannel viðurkennir hann að það hafi verið oft sem hann hafi spilað undir áhrifum áfengis.

„Já, ég hef gert það [leikið golf og drukkið áfangi]. Þetta var bara eðlilegt fyrir mig. Það má segja að þetta hafi verið hluti af daglegri rútínu. Þú getur geymt það [áfengið] á mörgum stöðum. Mörgum stöðum. Var það alltaf? Nei. En alltaf þegar verkirnir komu þá var það með í för.“

Líkt og Woods glímdi Mediate við bakmeiðsli og sagði hann að hann hefði verið heppinn að vera ekki stoppaður undir áhrifum líkt og Woods lenti í árið 2017.

„Þegar Woods var stoppaður undir áhrifum verkjalyfja hugsaði ég með mér, „Mm-hmm, já. Ég náðist bara aldrei.“ En þegar þetta er svona verkur þá gerir maður hvað sem er til að losna við hann.

Eftir lélegt gengi á PGA Champions mótaröðinni árið 2017 settist Mediate niður með konu sinni og tóku þau þá ákvörðun að hann skildi hætta að drekka. Mediate staðfesti í viðtalinu að hann hafi ekki smakkað áfengi síðan hann hætti í október árið 2017.