Fréttir

Rory á magnað vallarmet á Portrush
Rory verður á heimavelli á OPNA mótinu 2019. Hann hefur unnið silfurkönnuna einu sinni, árið 2014.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 15. júlí 2019 kl. 12:00

Rory á magnað vallarmet á Portrush

Í fyrsta skipti síðan 1951 fer OPNA mótið fram á Írlandi, nánar tiltekið á hinum erfiða Royal Portrush á Norður Írlandi.Portrush er talinn vera einn erfiðasti strandvöllur í heimi. Þegar OPNA mótið fór þar fram síðast, árið 1951, enduðu aðeins tveir kylfingar undir pari. Rúmum fimmtíu árum síðar var vallarmetið, sem var 64 högg, bætt svo um munaði og það af nýrri stórstjörnu úr nágrenninu í N-Írlandi.

Með níu fugla og einn örn setti hinn 16 ára Rory McIlroy, þá 16 ára, nýtt vallarmet, 61 högg, sem margir telja að verði seint ef þá einhvern tíma, bætt. Þegar Rory setti þetta vallarmet varð hann forsíðuefni í heimalandinu, í golfheiminum og víðar og sló út fyrrum stjörnur Norður-Íra sem höfðu verið vinsælasta forsíðuefnið, knattspyrnuhetjan George Best og snókersnillingurinn Alex Higgins. Á þessu ári mun Rory leika á 11. skipti á OPNA mótinu sem hann vann árið 2014 svo eftirminnilega. Og nú verður hann ekki á St. Andrews, Carnoustie eða Muirfield heldur á heimaslóðum, á Royal Porthrush.

Sagan á bakvið Rory er ansi skemmtileg en foreldrar hans unnu tvöfalda og jafnvel þrefalda vinnu til að strákurinn gæti spilað og æft og keppt nógu mikið þegar hann var að vaxa úr grasi. Þegar Rory vann sitt fyrsta mót utan N-Írlands í Flórída fóru augu að beinast að kappanum. 

„Það voru margir sem vissu um hæfileika drengsins þegar hann var ungur strákur en þó ekki af alvöru fyrr en hann varð 13-14 ára en þá fórum við að fylgjast með honum. Þá fór hann fyrir alvöru að setja ný vallarmet,“ segir Stephen Watson, fréttamaður hjá BBC.

Það eru eins og gefur að skilja margar sögurnar af hinum unga golfsnillingi í N-Írlandi. Þegar hann var 13-14 ára á Holywood golfvellinum, hans heimavelli, og var mættur á teig héldu margir eldri að hann væri óska eftir því að vera kylfusveinn þeirra. Hann svaraði á móti að hann vildi fá að spila með þeim og sló svo langt upphafshögg á miðja braut á fyrstu holu. Hann var ekki spurður oftar um kylfusveinsstarfið.

Magnað vallarmet

Þegar Rory var 16 ára og nýbúinn í grunnskóla mætti hann til leiks á meistaramóti Norður-Írlands. Markmiðið var að komast í Walker Cup lið Breta. Rory segir sjálfur að hann hafi verið ósköp venjulegur 16 ára unglingur að flestu leyti. „Mér finnst skrýtið að það séu 13 ár síðan en þegar ég skoða myndir af mér þá skýrist málið. Á þessum tíma var ég með mikið sjálfstraust og jafnvel „yfirviss“ stundum. Ég mætti kannski reyna að gera það aftur núna en þessi methringur minn er eftirminnilegur, sjálfstraustið í botni. Ég man hvert einasta högg,“ segir Rory þegar hann rifjar þennan einstaka árangur upp fyrir blaðamanni OPNA breska.

En rifjum þá aðeins upp þennan magnaða golfhring hjá Rory.

Hann rétt missti fuglapútt á fyrstu en setti niður fugl á 2. eftir að hafa slegið inn á með 6-járni. Þrjú pör komu í kjölfarið en síðan fuglar á 6. og 9. braut þar sem hann var með fleygjárn í annað högg. Hann fylgdi þeim fugli eftir með erni á 10. og fugli á 11. braut.

Hann fékk par á 12. og 13. braut og síðan lék hann síðustu 5 holurnar allar á fugli.

„Ég vissi að metið var 64 högg. Þegar ég var kominn 9 undir vissi ég að ég var kominn með nýtt vallarmet ef ég paraði síðustu tvær holurnar. Á þeim tíma var 17. braut par 5 og léttasta braut vallarins og fugl þar þýddi að ég var kominn tíu undir par. Á 18. braut átti ég frábært upphafshögg með drævernum. Sló svo gott innáhögg með 8-járni um 7 metra frá sem ég hugsaði mér að tryggja bara með tvípútti en ofaní fór boltinn og -11 staðreynd. Þetta var skemmtilegt líka út af því að pabbi gekk með mér á hringnum og vinur minn sem einnig var 16 ára var kylfusveinn hjá mér,“ segir Rory þegar hann rifjar þetta upp.

Átti ekki að vera hægt

Afrekið var fljótt að fréttast. Michael Bannon, golfkennari Rory á Holywood vellinum átti erfitt með að trúa þessu. „Ég var að keyra heim úr vinnunni þegar ég fékk símhringingu um vallarmetið og ég hélt að þetta væri grín. Mér datt ekki í hug að það væri hægt að leika þennan erfiða völl á 61 höggi. Völlurinn var þennan dag settur upp erfiðari því þetta var úrtökumót,“ segir Bannon.

Á sama tíma og Rory lék þennan methring, árið 2005, var OPNA mótið á St. Andrews. Tiger nokkur Woods vann það nokkuð örugglega en þeir félagar áttu eftir að kynnast betur. Rory fékk kveðju frá N-Írska kylfingnum, Darren Clarke og þótti vænt um það. Tveimur árum síðar gerði Rory atvinnumaður í íþróttinni.

Þegar Rory er spurður út í það að OPNA mótið fari fram á Royal Portrush brosir hann og segist afar ánægður með það. Mjög fáir af bestu kylfingum heims sem leika þar í sumar hafa leikið völlinn sem hefur fengið andlitslyftingu og breytingar verið gerðar. 

Brautir 17 og 18 voru lagðar niður til að koma fyrir húsnæði (tjaldbúðum) en í staðinn gerðar tvær nýjar brautir, 7. og 8. Það er með ólíkindum að sjá þessar nýju brautir á þessum gamla velli. Ekki er hægt að ímynda sér annað en að þær hafi verið þarna frá upphafi. 

Rory setti vallarmet á Quail Hollow mótinu á PGA mótaröðinni 2010 þegar hann lék á 62 höggum. Hann setti nýtt vallarmet þar fimm árum síðar þegar hann sigraði á mótinu á 61 höggi á öðrum velli. 

„Vonandi get ég látið sömu hluti gerast á Royal Portrush og sett nýtt vallarmet á nýjum velli,“ segir Rory.