Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Rory McIlroy: Ég hef gert þetta áður
Rory McIlroy. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 5. ágúst 2020 kl. 19:37

Rory McIlroy: Ég hef gert þetta áður

Norður-Írinn Rory McIlroy hefur náð mögnuðum árangri sem atvinnukylfingur. McIlroy hefur keppt í 307 mótum, 255 sinnum komist í gegnum niðurskurð og 153 sinnum endað í topp-10. Þá hefur hann þénað 76 milljónir dollara, unnið 26 mót og þar af fjóra risatitla.

Þrátt fyrir ungan aldur er ljóst að ferill McIlroy er nú þegar orðinn nógu góður til að komast í Frægðarhöllina en þrátt fyrir það væru sumir til í að sjá enn meira frá kylfingnum.

Eitt af því sem McIlroy vantar undanfarin ár er sigur á risamóti en síðasti sigur Norður-Írans kom árið 2014.

Á morgun, fimmtudag, fer PGA meistaramótið fram og segist McIlroy ekki pirraður að hann sé búinn að fara í gegnum sex ár án risatitils.

„Ég hugsa að ef ég væri ekki búinn að vinna risatitil þá væri ég pirraður. Það er ekki eins og ég viti ekki hvað þarf til. Ég hef gert þetta áður.

Kannski eru áskoranirnar aðeins öðruvísi, kannski eru keppinautarnir öðruvísi en að hafa unnið eins öruggt og raun bar vitni í fyrstu skiptin.. þetta er þarna.

Það er ekki eins og ég hafi ekki getuna til að vinna, sérstaklega eftir tímabil eins og í fyrra þar sem ég var kylfingur ársins á PGA mótaröðinni, vann fjórum sinnum og vann suma af bestu keppendahópum golfsins. Þetta pirrar mig ekki en auðvitað viltu vinna stærstu mótin.“

PGA meistaramótið hefst á fimmtudaginn en um er að ræða fyrsta risamót ársins. Opna bandaríska mótið fer fram 17.-20. september og Masters mótið 12.-15. nóvember. Opna mótið fer ekki fram í ár.

Risatitlar Rory McIlroy:

2011: Opna bandaríska
2012: PGA meistaramótið
2014: Opna mótið
2014: PGA meistaramótið