Fréttir

Rory McIlroy sigraði á TOUR Championship
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 25. ágúst 2019 kl. 21:29

Rory McIlroy sigraði á TOUR Championship

Norður-Írinn Rory McIlroy sigraði í dag á TOUR Championship mótinu á PGA mótaröðinni og varð þar með FedEx stigameistari árið 2019.

Fyrir lokahringinn var Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka í forystu á 15 höggum undir pari en kastaði henni frá sér á 7. holu þegar hann fékk tvöfaldan skolla á meðan McIlroy fékk fugl.

Eftir 13 holur var McIlroy búinn að fá fjóra fugla og ekki enn búinn að tapa höggi á meðan aðrir kylfingar voru búnir að gera nokkur mistök. Hann hleypti hins vegar spennu í leikinn með tveimur skollum á 14. og 15. holu en svaraði því með flottri björgun á 16. holu og svo frábærum fugli á 17. holu.

Þegar komið var á 18. holu var McIlroy með þriggja högga forystu á Xander Schauffele á 17 höggum undir pari og gerði engin mistök, fékk fugl og sigraði með fjögurra högga mun.

McIlroy sigraði einnig í FedEx keppninni árið 2016 og er einungis annar kylfingurinn í sögu keppninnar sem vinnur hana tvívegis. Hinn kylfingurinn er Tiger Woods sem var ekki með í lokamótinu þetta árið.

Fyrir sigurinn fær McIlroy 15 milljónir Bandaríkjadollara en hann er nú kominn með 17 sigra á PGA mótaröðinni á sínum magnaða ferli.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.