Fréttir

Rory og Hovland efstir og jafnir fyrir lokadaginn
Rory McIlroy á St. Andrews í vikunni. Ljósmynd: golfsupport.nl/Richard Martin-Roberts
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 16. júlí 2022 kl. 23:34

Rory og Hovland efstir og jafnir fyrir lokadaginn

Norður-Írinn Rory McIlroy og Norðmaðurinn Viktor Hovland leiða Opna mótið fyrir fjórða og síðasta dag.

Báðir léku þeir á 66 höggum eða á 6 höggum undir pari í dag og hafa fjögurra högga forskot á þá Cameron Young og Cameron Smith sem náðu sér ekki á strik í dag, Young lék á 71 höggi eða á 1 höggi undir pari og Smith á 73 eða á 1 höggi yfir pari.

McIlroy fékk þrjá fugla á fyrri níu holunum og kom sér í forystu þegar hann setti niður örn á þeirri tíundu með frábæru höggi úr glompu. Hann tapaði höggi á þeirri sautjándu en fugl á átjándu fylgdi í kjölfarið. Spilamennskan hjá Hovland var öllu stöðugri, fjórir fuglar á fyrri níu og tveir á seinni.

 

 

Bandaríkjamaðurinn Kevin Kisner átti besta hringinn í dag en hann lék á 65 höggum eða á 7 höggum undir pari og stökk upp um 53 sæti fyrir vikið. Englendingurinn Tommy Fleetwood átti einnig fínan hring en hann kom í hús á 6 höggum undir pari og færðist upp um 28 sæti. Hann er núna jafn landa sínum Matt Fitzpatrick og Ástralanum, Adam Scott, í því áttunda.

Staðan á mótinu

Það má búast við spennandi baráttu milli þeirra Hovland og McIlroy á morgun en Viktor Hovland hefur aðeins einu sinni áður tekið þátt í Opna mótinu, það var í fyrra og þá lauk hann leik jafn í tólfa sæti. Rory McIlroy er hins vegar öllu reynslumeiri en hann tók fyrst þátt árið 2007, þá sem áhugamaður, og endaði jafn í 42. sæti. Síðan þá hefur hann keppt ellefu sinnum á Opna mótinu, unnið það einu sinni, árið 2014, og fjórum sinnum endað meðal fimm efstu.

Fyrstu menn verða ræstir út á lokahringinn upp úr klukkan sex í fyrramálið á íslenskum tíma en síðustu ráshóparnir milli klukkan eitt og tvö eftir hádegi.

The Old Course á St. Andrews getur verið óútreiknanlegur og því má allt eins búast við því að fleiri kylfingar blandi sér að alvöru í baráttuna á lokahringnum.