Fréttir

Rose endaði á þremur fuglum og tók forystuna
Justin Rose.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 14. júní 2019 kl. 06:35

Rose endaði á þremur fuglum og tók forystuna

Fyrsti hringur Opna bandaríska meistaramótsins fór fram í gær en mótið er haldið á Pebble Beach vellinum. Það er Englendingurinn Justin Rose sem er í forystu eftir daginn á sex höggum undir pari.

Rose byrjaði daginn á þremur pörum áður en hann fékk tvo fugla, örn og eitt par, þá var hann kominn fjögur högg undir par eftir sjö holur. Hann endaði fyrri níu holurnar á þremur höggum undir pari eftir að hafa fengið skolla á þeirri áttundu. Á síðari níu holunum fékk Rose sex pör í röð en endaði svo daginn á því að fá þrjá fugla á síðustu þremur holunum. Hann endaði því hringinn á 65 höggum, eða sex höggum undir pari.

Jafnir í öðru sæti á fimm höggum undir pari eru þeir Rickie Fowler, Xander Schauffele og Louis Oosthuizen. Það er svo tveir kylfingar sem eru jafnir í sjötta sæti á fjórum höggum undir pari.

Tiger Woods lék ágætlega á fyrsta hring mótsins en hann kom í hús á 70 höggum, eða höggi undir pari, og er jafn í 28. sæti eftir daginn.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.