Fréttir

Rose í sérflokki á fyrsta degi Masters mótsins
Justin Rose.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 8. apríl 2021 kl. 22:25

Rose í sérflokki á fyrsta degi Masters mótsins

Englendingurinn Justin Rose er með fjögurra högga forystu eftir fyrsta keppnishring Masters mótsins sem fram fer á Augusta National vellinum.

Rose byrjaði reyndar ekki nógu vel en hann var á tveimur höggum yfir pari eftir 7 holur og um miðjan hóp. Við tók ótrúlegur kafli frá 8.-18. holu þar sem Rose fékk sjö fugla, einn örn og tapaði ekki höggi.

Ljóst er að Rose mun byrja annan keppnisdaginn fjórum höggum á undan næsta kylfingi þrátt fyrir að nokkrir kylfingar séu enn úti á velli.

Rose hefur áður spilað vel á Masters mótinu en hann hefur tvisvar endað í 2. sæti á mótinu, síðast árið 2017 þegar hann tapaði gegn Sergio Garcia í bráðabana um sigurinn.

Brian Harman og Hideki Matsuyama deila öðru sætinu á 3 höggum undir pari. Höggi á eftir þeim eru fjórir kylfingar, þar á meðal sigurvegarinn frá árinu 2019, Patrick Reed.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

1. Justin Rose, -7
2. Brian Harman, -3
2. Hideki Matsuyama, -3
4. Will Zalatoris, -2
4. Webb Simpson, -2
4. Christian Bezuidenhout, -2
4. Patrick Reed, -2
8. Si Woo Kim, -1
8. Jason Kokrak, -1
8. Shane Lowry, -1
8. Tyrrell Hatton, -1