Fréttir

Rúnar og Saga eru Íslandsmeistarar í holukeppni 2019
Saga Traustadóttir og Rúnar Arnórsson. Mynd: [email protected]
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 23. júní 2019 kl. 16:35

Rúnar og Saga eru Íslandsmeistarar í holukeppni 2019

Rúnar Arnórsson, GK, og Saga Traustadóttir, GR, urðu í dag Íslandsmeistarar í holukeppni þegar lokadagur mótsins fór fram á Garðavelli á Akranesi. Þetta er fyrsti sigur Sögu á Íslandsmótinu í holukeppni en Rúnar var að verja titil sinn frá því í fyrra.

Í karlaflokki réðst úrslitaleikurinn á 16. holu þegar Rúnar hafði betur gegn Ólafi Birni Loftssyni, 3/2, þar sem Rúnar hafði haft yfirhöndina nær allan leikinn. Rúnar var kominn þrjár holur upp eftir 8 holur og lét þá forystu í raun aldrei af hendi.

Í leiknum um þriðja sætið hafði Jóhannes Guðmundsson, GR, betur gegn klúbbfélaga sínum, Arnóri Inga Finnbjörnssyni, á fyrstu holu í bráðabana.

Leið Rúnars að sigrinum var eftirfarandi:

Riðlakeppni: Sigur gegn Helga Snæ Björgvinssyni, 9/8
Riðlakeppni: Tap gegn Vikari Jónassyni, 2/1
Riðlakeppni: Sigur gegn Ragnari Má Garðarssyni, 5/4
8 manna úrslit: Sigur gegn Hlyni Bergssyni, 4/2
Undanúrslit: Sigur gegn Jóhannesi Guðmundssyni, 3/2
Úrslit: Sigur gegn Ólafi Birni Loftssyni, 3/2

Í kvennaflokki fór úrslitaleikur Sögu og Ragnhildar Kristinsdóttur alla leið í bráðabana eftir jafnan og spennandi leik. Saga gerði sér lítið fyrir og fékk fugl á fyrstu holu bráðabanans og tryggði sér þannig sigur í mótinu. 1. holan á Garðavelli var leikin í bráðabananum og setti Saga rúmlega eins metra pútt niður fyrir fuglinum.

Í leiknum um þriðja sætið hafði Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, betur gegn Amöndu Guðrúnu Bjarnadóttur, GHD, 5/4.

Leið Sögu að sigrinum var eftirfarandi:

Riðlakeppni: Sigur gegn Nínu Margréti Valtýsdóttur, 6/4
Riðlakeppni: Sigur gegn Perlu Sól Sigurbrandsdóttur, 1/0
Riðlakeppni: Sigur gegn Hafdísi Öldu Jóhannsdóttur, 1/0
8 manna úrslit: Sigur gegn Heiðrúnu Önnu Hlynsdóttur, 3/2
Undanúrslit: Sigur gegn Amöndu Guðrúnu Bjarnadóttur, 6/5
Úrslit: Sigur gegn Ragnhildi Kristinsdóttur á 19. holu

Hér er hægt að sjá úrslit allra leikja.